Bali er lausagöngusvæði fyrir aftan Hrafnistu, svæðið er umvafið hrauni sem liggur að mörkum Hafnarfjarðar. Svæðið er ekki afgirt og býður upp á skemmtilegar gönguleiðir. Tjarnir eru á svæðinu en þó nokkrar eru þannig að þær hreinsast ekki og því má gera ráð fyrir að ef hundur tekur smá sund sprett þá komi hann í öðrum lit og ílla lyktandi til baka.
Sett hefur verið upp nýtt 1500 fermetra hundagerði í Ullarnesbrekkum, í fallegu umhverfi Ævintýragarðs Mosfellinga. Þar er hundaeigendum heimilt að sleppa sínum hundum lausum undir eftirliti. Aðgengi að svæðinu er gott með göngustíg milli íþróttasvæðis við Varmá og Leirvogstungu. Hundaeigendur eru hvattir til að ganga vel um svæðið og hreinsa ávallt upp eftir hundinn. Á staðnum er bekkur, ruslatunna og sérstök ruslatunna fyrir hundaskít.
Annað tveggja hundasvæða Akureyringa er staðsett við Blómsturvelli, keyrt er norður þegar komið er framhjá Húsasmiðjunni og beygt til hægri við gult skilti þar sem stendur Blómsturvellir. Keyrt er nokkuð áleiðis þennan veg ( ca. 1km) þar til komið er að girtu svæði með bílaplani. Frá miðbæ Akureyrar þarf að keyra tæpa 7 km til að komast þangað. Svæðið er afgirt með fjöru og gönguleiðum. Frábært svæði fyrir hunda og eigendur þeirra til að eiga góða stund saman.
Hundasvæðin í fjarðarbyggð eru nokkur og er hvert um sig nokkrir hektarar að stærð. Nánari upplýsingar um hundasvæðin í fjarðarbyggð er hægt að finna með því að smella hér
Hundasvæði á Siglufirði er í Skútudal sunnan vegarins sem liggur upp í Héðinsfjarðargöng. Svæðið er óafgirt og stórt. Hægt er að nálgast svæðið frá tveimur stöðum. Þegar keyrt er frá bænum er hægt að beygja til hægri annars vegar við afleggjara rétt ofan við kirkjugarðinn og hins vegar við afleggjara rétt utan við munna Héðinsfjarðarganga.
Hundasvæðið í Ólafsfirði er í Skeggjabrekkudal sunnan golfvallar. Svæðið er óafgirt og stórt. Hægt er að nálgast svæðið með því að keyra Garðsveg og beygja upp í dalinn við afleggjara rétt sunnan við brúna yfir ána.

