Fyrsta kvöldið
- Hundaheimar
- Dec 2, 2017
- 2 min read
Updated: Oct 20, 2019
Fyrsta kvöldið þegar við fengum Pílu var eftirvængingin búin að vera mikil. Við áttum von á nýjum fjölskyldumeðlim og vorum bara hreinlega ekki viss um hvernig við ættum að haga okkur í kringum hundinn, svona fyrst um sinn.
Bjallan hringdi og við rukum öll til. Þarna var hún þessi elska. Bara hvolpur, svakalega spennt og smá óörugg með nýja heimilið svona fyrst um sinn en það var fljótt að lagast. Lítil og sæt tík sem var að fá nýtt heimili og nýja fjölskyldu. Svakalega var þetta skemmtilegt.

Allt kvöldið vorum við agndofa yfir þessu litla lífi sem var komið til okkar. Við horfðum á hana allan tímann og vorum svo hrifin af öllu því sem hún gerði. Aww hún situr!..... Hún er að þefa af skónum….. hún er að sleikja hendina mína….. hún er að hvíla sig…. hún er að horfa út um gluggann…. hún er að pissa?.
Úbs. Hún veit ekki að hún á að fara út um bakdyrnar til að fara í garðinn og pissa. Emm... hvernig kennum við henni það?... við finnum út út því seinna. Núna erum við bara að njóta þess að hún er kominn til okkar.
Kvöldið líður og nú er kominn háttatími. Allir búnir að bursta tennurnar og bjóða Pílu góða nótt.

Sængin svo hlý og góð og draumaheimar að koma í heimsókn. Þá allt í einu heyrist væl og grátur úr stofunni? Hún var að gráta? Við fórum fram og báðum hana um að vera róleg og fara að sofa, þetta væri allt í lagi og við myndum hafa gaman aftur á morgun. Það virkaði ekki. Hvað gerum við þá. Við verðum að fá svefn en við vorum búin að ákveða að hún myndi ekki sofa inn í sama herbergi og við.
Þetta hélt bara áfram. Hún róaðist ekkert við það að við kæmum til hennar að hugga hana. Hvað var til ráða? Það endaði með því að við vorum á vöktum. Við lágum hjá henni í sófanum við hliðina á búrinu hennar. Þá var hún róleg og náði að sofna. En um leið og við stóðum upp og ætluðum að fara í svefnherbergið þá vaknaði hún og byrjaði að væla.
Það endaði með því að við sváfum í sófanum við hliðina á henni og fengum öll góðan svefn, ja svona næstum.
Comments